Sagan

Atlantsolía var stofnað 11. Júní 2002 af þeim Brandon C. Rose, Guðmundi Kjærnested og Símoni Kjærnested.      

Fyrstu skref félagsins voru að reisa birgðarstöð og lauk framkvæmdum við hana í júlí 2003 við Hafnarfjarðarhöfn. Birgðastöðin samanstendur af 3 tönkum, tveimur 3,8 milljón lítra olíutönkum og einum 3,4 milljón litra bensíntanki.

Fyrsti olíufarmur félagsins kom frá norska olíufélaginu Statoil 28. júlí 2003. Farmurinn var díselolía og skipagasolía og hófst sala til stórnotenda þá þegar.   

Fyrsta bensínstöð fyrirtækisins var opnuð að Kópavogsbraut 115.  Fyrsti dísellítrinn var seldur 1. desember 2003 og fyrsti bensínlítrinn 8. janúar 2004. 

Tilkoma Atlantsolíu hleypti lífi í samkeppni á markaðnum en fyrsti bensínlítrinn var seldur á 92,5 kr. sem þá var 2 krónum lægra verð en samkeppnisaðilar buðu upp á. Þegar bensínsalan hófst var gert ráð fyrir að fyrstu birgðir myndu duga í 3 vikur en viðtökur fóru fram úr björtustu vonum og dugðu aðeins í 4 daga og varð félagið því bensínlaust í tæpar 3 vikur eftir að fyrstu birgðir kláruðust. Samkeppnisaðilar brugðust við með því að lækka verð í nágrenni Atlantsolíu en hækkuðu verð um leið og bensínið kláraðist hjá félaginu. Það má því fullyrða að samkeppni á olíumarkaði hafi aukist með tilkomu Atlantsolíu.

Það var stefna Atlantsolíu frá upphafi að reka eingöngu ómannaðar sjálfsafgreiðslustöðvar þar sem það var trú stofnenda að þær væru framtíðin auk þess sem áhersla var lögð á einfalda eldsneytiskaup fyrir viðskiptavini. Þannig var dælulykillinn kynntur á íslenskum markaði og viðtökurnar voru mjög góðar.  Í kjölfarið voru fleiri lausnir þróaðar til að einfalda viðskiptin og var félagið með þeim fyrstu til að bjóða upp á tölvupóstkvittanir og aðgang að þjónustusvæði dælulykils.

Í dag rekur Atlantsolía 25 sjálfsafgreiðslustöðvar, 18 á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og 7 stöðvar á landsbyggðinni.

Atlantsolía hefur það að leiðarljósi að bjóða ávallt samkeppnishæft verð á eldsneyti, gott aðgengi að bensínstöðvum og einfaldleika í þjónustu.  Við leggjum áherslu á  lágan rekstrarkostnað, hagkvæm innkaup, skilvirka dreifingu, vel staðsettar stöðvar og hæft starfsfólk.  

 

Viðurkenningar:

2006 Silfurverðlaun Neytendasamtakanna.
2007 Neytendaverðlaunin 2007 - þriðja sæti.
2009 Hástökkvari ársins – Niðurstöður VR könnunnar á Fyrirtæki ársins.
2011 Ánægjuvogin. 1 sætið í sínum flokki.
2012 Ánægjuvogin. 1 sætið í sínum flokki.
2013 Ánægjuvogin. 1 sætið í sínum flokki.
2014 Ánægjuvogin. 1 sætið í sínum flokki.
2016 Ánægjuvogin. 1 sætið í sínum flokki og að auki með hæstu einkunn allra fyrirtækja sem þátt tóku í könnuninni.