Chat with us, powered by LiveChat Fara á efnissvæði

App skilmálar


Skilmálar fyrir notkun smáforrits Atlantsolíu ehf.

1. Almennt um skilmála smáforritsins

Skilmálar þessir gilda um notkun notanda á smáforriti Atlantsolíu ehf., kt. 590602-3610,
Lónsbraut 2, 220 Hafnarfirði („Atlantsolía“) og viðskipti sem stunduð eru með atbeina
smáforritsins. Upplýsingar og athugasemdir í tengslum við skilmálana má koma á framfæri með
tölvupósti á netfangið atlantsolia@atlantsolia.is eða í síma 591-3100.

Atlantsolía er útgefandi smáforritsins sem veitir aðgang að upplýsingum, vörum, þjónustu og
markaðssetningarefni og eftir atvikum sérkjörum til viðskiptavina sem boðið er upp
samkvæmt skilmálum þessum. Einnig er unnt að nálgast upplýsingar um tilgreinda þjónustu
sem notandi er skráður fyrir og gjöld.

Smáforritið er forrit útgefið af og í eigu Atlantsolíu sem aðgengilegt er í snjallsíma notanda fyrir
tilstilli netverslana, s.s. App Store og Google Play. Smáforritið er aðeins aðgengilegt
snjallsímum sem uppfylla lágmarks tækniforskriftir þess.

Skilmálar þessir fela í sér samning milli Atlantsolíu og notanda smáforritsins fyrir notkun og
greiðslu á þjónustu og vörum Atlantsolíu. Tryggi lög um neytendakaup nr. 48/2003 eða lög um
þjónustukaup nr. 42/2000 notanda, sem neytanda sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003 og 3.
mgr. 1. gr. laga nr. 42/2000, ríkari rétt skulu þau ganga framar ákvæðum skilmálanna. Almennir
viðskiptaskilmálar Atlantsolíu gilda þar sem ákvæðum þessara skilmála sleppir. Um vinnslu
persónuupplýsinga í appinu fer samkvæmt 6. gr. skilmála þessara og persónuverndarstefnu
Atlantsolíu.

Skilmálar þessir eru einvörðungu settir fram á íslensku. Með því að hlaða niður smáforritinu
staðfestir notandi að hann hafi lesið og undirgengist skilmála þessa. Skal notandi kynna sér
skilmála þessa gaumgæfilega áður en aðgangur er stofnaður í smáforritinu og notkun smáforrits hefst.

2. Auðkenning og notkun smáforritsins

Notandi er hver sá aðili sem með rafrænum skilríkjum sækir um eða stofnar aðgang að
smáforriti Atlantsolíu og notar það til að stunda kaup á vöru eða þjónustu og/eða nálgast
upplýsingar sem birtar eru í smáforritinu. Notkun samkvæmt skilmálum þessum telst bæði
vera kaup notanda á vörum og þjónustu sem gerð er aðgengileg fyrir tilstilli smáforritsins, auk
annarra færslna eða upplýsinga sem notandi færir inn í forritið, s.s. upplýsingar um
heimilisfang og greiðslukort.

Aðgangur og notkun smáforritsins eru bundin við skráðan notanda og óheimilt er að deila
aðgangsupplýsingum með þriðja aðila eða á annan hátt veita þriðja aðila aðgang að
persónulegum aðgangi skráðs notanda að smáforritinu. Notanda ber sömuleiðis að tryggja
öryggi aðgangsupplýsinga sinna að smáforritinu. Gruni notanda að aðgangur hans að
smáforritinu hafi verið misnotaður ber honum að upplýsa Atlantsolíu um slíkt án tafar.

Eftir atvikum getur snjalltæki notanda boðið upp á aðra auðkenningarleið fyrir smáforritinu
t.d. með notkun lífkennaupplýsinga eins og fingrafara- eða andlitsskanna. Notanda er frjálst
að velja slíka auðkenningaraðferð í gegnum snjalltæki sitt en hún er alfarið á ábyrgð notanda.
Notkun á lífkennum til að auðkenna notanda í snjallsíma fer eftir skilmálum framleiðanda
snjalltækis en engar upplýsingar um lífkennin berast til Atlantsolíu.

3. Greiðslumáti

Notandi skal gæta þess frá skráningu eða stofnun aðgangs í smáforritinu að ávallt sé skráður
gildur greiðslumáti sem nýttur er við kaup á vörum og þjónustu frá Atlantsolíu, þ.e. gilt
greiðslukort, í smáforritinu. Skulu úttektarmörk greiðslukortsins ávallt nægja til að greiða fyrir
vörur og þjónustu Atlantsolíu.

Notkun á smáforritinu er gjaldfrjáls, þ.e. notandi greiðir einungis fyrir þær vörur eða þjónustu
sem hann kaupir í gegnum smáforritið.

Notandi getur sjálfur stillt hámarksúttekt sem honum er heimil í gegnum smáforritið, að því
gefnu að hámarksúttektin samræmist úttektarmörkum greiðslukorts notanda, ef við á. Við
notkun smáforritsins kann að vera framkvæmd færsla á greiðslukorti notanda í samræmi við
valda heimild. Aðeins er tekið gjald fyrir þá fjárhæð sem dælt er fyrir og umframkostnaður
bakfærður á greiðslukort notanda.

Ef greiðslukortafyrirtæki notanda hafnar greiðslu vegna viðskipta notanda gegnum smáforritið
áskilur Atlantsolía sér rétt til að krefja notanda um efndir samkvæmt viðskiptunum ásamt
áföllnum vöxtum, dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.

Notandi ber ábyrgð á því að aðgangsorð, lykilnúmer, greiðslukortaupplýsingar og aðrar
mikilvægar upplýsingar komist ekki í hendur óviðkomandi. Skráður notandi skuldbindur sig til
að greiða að fullu úttektir sem framkvæmdar eru með smáforritinu, hvort sem þær eru í þágu
notanda eða þriðja aðila, með eða án vitneskju notanda. Misnotkun þriðja aðila á
notandaaðgangi viðskiptavinar, greiðslukortapplýsingum eða öðrum slíkum upplýsingum sem
notanda ber að meðhöndla með varkárni, er ekki á ábyrgð Atlantsolíu og ber að tilkynna til
lögreglu.

4. Verð og viðskiptakjör

Upplýsingar um verð, viðskipta- og afsláttarkjör Atlantsolíu birtast notanda í smáforritinu, með
fyrirvara um villur, í samræmi við gildandi verðskrá á hverjum tíma. Reynist misræmi vera á
milli verðupplýsinga í smáforritinu og verðskrár Atlantsolíu skal sú síðarnefnda gilda. Augljósar
villur skapa notanda ekki rétt umfram skilmála þessa og almenna viðskiptaskilmála Atlantsolíu.

Atlantsolía kann að breyta kjörum, verðfyrirkomulagi eða afsláttarkerfum án fyrirvara. Slíkar
breytingar taka gildi gagnvart notanda um leið og þær hafa verið tilkynntar skv. 8. gr. skilmála
þessara.

5. Framsal

Atlantsolíu er hvenær sem er heimilt að framselja réttindi sín og skyldur, sem leiða af skilmálum
þessum, til annars aðila innan sömu fyrirtækjasamstæðu og Atlantsolía tilheyrir.

6. Ábyrgð

Ábyrgð Atlantsolíu gagnvart viðskiptavini takmarkast við þá upphæð sem hann greiðir til
félagsins við kaup og sölu á vöru eða þjónustu í gegnum forritið hverju sinni. Í engum tilfellum
ber félagið ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni eða hagnaðarmissi sem notandi kann að verða
fyrir vegna notkunar smáforritsins. Ábyrgð Atlantsolíu er háð því að notandi hafi að öllu leyti
efnt skyldur sínar og hagað háttsemi sinni í samræmi við lög, reglur og venjur, þ.m.t. hvað
varðar öryggi og umgengni við kaup á þjónustu.

Notandi ber fulla ábyrgð á öllum aðgerðum sem framkvæmdar eru í gegnum aðgang notanda
í smáforritinu og skal halda Atlantsolíu skaðlausri af hvers konar tjóni, kröfum, aðgerðum,
skaða, ábyrgðum, sektum, refsingum eða kostnaði sem Atlantsolía kann að verða fyrir í
tengslum við viðskiptin, aðgerðir eða aðgerðarleysi viðskiptavinar. Gildir það hvort sem um er
að ræða vanrækslu, ásetning eða gáleysi notanda, umboðsaðila hans eða fulltrúa í tengslum
við samning aðila.

Atlantsolía ber ekki ábyrgð á tjóni sem leiðir af galla eða bilun í smáforritinu, hugbúnaði eða
tjóni sem kann að hljótast af því að smáforritið liggur niðri. Verði truflanir eða tafir á þjónustu
Atlantsolíu takmarkast ábyrgð Atlantsolíu við að lagfæra truflanir og tafir eins fljótt og unnt er.
Atlantsolía ber ekki ábyrgð á tjóni sem ófyrirséðir ytri atburðir (force majeure), t.a.m.
viðskiptahömlur, náttúruhamfarir, farsóttir, stríðsástand, verkföll eða truflanir á
flutningsnetum, kunna að valda notanda. Leiði slík atvik til þess að Atlantsolía geti ekki efnt
skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum, ber Atlantsolía ekki ábyrgð á því svo lengi sem slík
atburðir standa yfir.

7. Persónuvernd

Við skráningu í smáforritið og notkun þess í tengslum við þá þjónustu sem Atlantsolía veitir
samkvæmt skilmálum þessum er nauðsynlegt að safna og vinna persónuupplýsingar um
notanda og tengjast notkun hans á smáforritinu og viðskiptum. Vinnsla persónuupplýsinga er
nauðsynleg til að efna samning milli Atlantsolíu og notanda og framfylgja skilmálum þessum
skv. 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

Við stofnun aðgangs í smáforritinu þarf notandi að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum og
skrá upplýsingar um símanúmer sitt ásamt upplýsingum um nafn notanda, kennitölu, netfang
ásamt greiðslukortaupplýsingum s.s. kortanúmeri og gildistíma korts. Vakin er athygli á því að
upplýsingar um greiðslukortanúmer eru dulkóðaðar og vistast ekki í smáforritinu sjálfu.
Jafnframt er unnið með upplýsingar um IP-tölu snjalltækis, staðsetningu notanda svo unnt sé
að finna næsta afgreiðslustað Atlantsolíu og aðrar tæknilegar upplýsingar t.d. um einkvæmt
notendaauðkenni og aðgerðir notanda í smáforritinu.

Framangreindar persónuupplýsingar eru unnar í þeim tilgangi að geta veitt notanda aðgang að
smáforritinu, gera honum kleift að greiða fyrir vörur og þjónustu með smáforritinu, til að
tryggja öryggi upplýsinga, senda greiðslukvittun til notanda og veita notanda aðgang að
upplýsingum um veitta þjónustu, tilboð, fríðindi í samræmi við skilmála þessa og aðra
samninga milli notanda og Atlantsolíu. Þá eru persónuupplýsingar unnar í þágu beinnar
markaðssetningar Atlantsolíu og til að tryggja gæði og virkni smáforritsins en slík vinnsla byggir
á lögmætum hagsmunum Atlantsolíu.

Þær persónuupplýsingar sem safnast við notkun smáforritsins og eru birtar í smáforritinu eru
ekki vistaðar í smáforritinu sjálfu heldur eru þær sóttar og varðveittar í öðrum kerfum
Atlantsolíu eða hjá hýsingar- og vinnsluaðilum félagsins í samræmi við ákvæði
persónuverndarlaga. Atlantsolía varðveitir upplýsingar um notanda á meðan notandi er
skráður í smáforritinu og svo lengi sem þörf er á til að tryggja lögmæta viðskiptahagsmuni
Atlantsolíu og að því marki sem lögboðið er.

Atlantsolía gætir þess að öll vinnsla persónuupplýsinga sem fram fer hjá félaginu, sem
ábyrgðaraðila að vinnslu persónuupplýsinga, og fer fram í tengslum við notkun smáforritsins,
samrýmist ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Atlantsolía mun ekki nota persónuupplýsingar í öðrum tilgangi eða afhenda þær þriðja aðila
nema á grundvelli skýrrar lagaheimildir, dómsúrskurðar, skriflegs vinnslusamnings eða með
samþykki notanda.

Frekari upplýsingar um vinnslu, öryggi og varðveislu persónuupplýsinga ásamt upplýsingum
um réttindi notanda gagnvart Atlantsolíu, samkvæmt lögum nr. 90/2018, er að finna í
persónuverndarstefnu fyrirtækisins og telst stefnan vera hluti af skilmálum þessum.

8. Lokun aðgangs og vanefndir

Berist greiðslur frá notanda ekki á réttum tíma sendir Atlantsolía skriflega innheimtuviðvörun
til notanda. Séu útistandandi kröfur ekki greiddar innan frests, sem veittur er skv.
innheimtuviðvöruninni, verður krafan flutt í milliinnheimtu.

Atlantsolíu er heimilt að loka fyrir aðgang notanda að smáforritinu sinni viðskiptavinur ekki
innheimtuviðvöruninni. Notanda ber að greiða að fullu allar útistandandi kröfur og áfallna vexti
til Atlantsolíu ef til nýskráningar eða endurnýjunar aðgangs getur komið.

Sé árangurslaust fjárnám gert hjá notanda, hann lýstur gjaldþrota, nauðasamningsumleitanir
hafnar, eða aðrir atburðir eiga sér stað sem vekja efasemdir Atlantsolíu um greiðslugetu
notanda, er Atlantsolíu heimilt að hætta að þjónusta viðskiptavin og gjaldfella útistandandi
kröfur.

Atlantsolíu er heimilt að loka aðgangi notanda, synja eða segja upp þjónustu til notanda ef
hann veldur skemmdum á búnaði, þ.m.t. hugbúnaði, eldsneytisstöðvum eða öðrum eignum
Atlantsolíu. Hið sama gildir ef notandi viðhefur háttsemi sem hefur skaðleg áhrif á þjónustu
eða kerfi Atlantsolíu, gerir tilraun til að komast hjá gjaldtöku eða sýnir af sér aðra háttsemi sem
er til þess fallin að valda Atlantsolíu tjóni.

Eyðing smáforrits úr snjalltæki notandi jafngildir ekki uppsögn á samningi eða þjónustu
Atlantsolíu. Vilji notandi eyða aðgangi sínum úr smáforritinu skal hann hafa samband við
Atlantsolíu og óska eftir að aðgangi sé eytt og eftir atvikum að þjónusta til hans sé stöðvuð.

9. Samskipti

Atlantsolía áskilur sér rétt til að senda notanda, sem jafnframt telst viðskiptavinur Atlantsolíu,
skilaboð sem tengjast notkun hans og virkni í smáforritinu, þjónustu, fríðindum, uppfærslum
eða aðrar nauðsynlegar upplýsingar svo sem með tölvupósti eða tilkynningum í smáforritinu
sjálfu

10. Breytingar á skilmálum þessum

Atlantsolíu er hvenær sem er heimilt að breyta skilmálum þessum einhliða. Tilkynning um
breytingar á skilmálum þessum skal send notanda í gegnum smáforritið. Breytingar taka gildi
þegar tilkynning er send nema annað sé sérstaklega tekið fram í tilkynningu.

Notandi telst hafa samþykkt breytta skilmála haldi hann notkun smáforritsins áfram eftir að
hafa verið tilkynnt um skilmálabreytingu.

Atlantsolía áskilur sér jafnframt rétt til að gera tæknilegar breytingar og uppfærslur á
smáforritinu eftir þörfum í þeim tilgangi að bæta virkni smáforritsins og þeirrar þjónustu sem
veitt er í smáforritinu. Þá áskilur Atlantsolía sér rétt til að hætta með smáforritið hvenær sem
er.

11. Lögsaga og gildi

Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur upp af efni skilmálanna skulu aðilar leitast
við að sætta hann með samningi sín á milli. Reynist það ekki unnt er notanda eftir atvikum
heimilt að óska eftir áliti kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Dómsmál skulu rekin fyrir
Héraðsdómi Reykjaness.

Reynist einstök ákvæði skilmála þessara ósamrýmanleg lögum, skulu slík ógild ákvæði gild með
þeim lagfæringum sem nauðsynlegar eru til að ákvæðin nái markmiði sínu og/eða efni slíkra
ákvæða gilda að því marki sem samrýmanlegt er lögum. Við slíkar aðstæður skulu önnur
ákvæði skilmálanna halda gildi sínu.

12. Gildistími

Skilmálar þessir gilda frá 3. nóvember 2023